FlugfÚlagshßtÝ­in Ý Nuuk a­ hefjast: Eitt metna­arfyllsta verkefni Hrˇksins ß GrŠnlandi til ■essa

Skákfélagið Hrókurinn og Flugfélag Íslands efna til skákhátíðar í Nuuk, höfuðborg Grænlands, dagana 25. október til 1. nóvember. Hátíðin er haldin í samvinnu við Grænlensk-íslenska viðskiptaráðið og Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands.

 Hátíðin hefst á föstudag, samhliða kaupstefnu á vegum Íslandsstofu, FÍ og Grænlensk-íslenska viðskiptráðsins sem tugir íslenskra fyrirtækja taka þátt í. Við hátíðlega athöfn í Katuaq, norræna húsinu í Nuuk, munu tugir barna fá taflsett að gjöf frá Flugfélagi Íslands, en alls munu FÍ og Hrókurinn gefa 300 grænlenskum börnum taflsett á næstunni. Börnin munu líka fá skákkver á grænlensku, sem skákfrömuðurinn Siguringi Sigurjónsson stendur að, og fleiri gjafir.

 Við setningarathöfn Flugfélagsskákhátíðarinnar verða þær Benedikte Thorsteinsson og Kristjana G. Motzfeldt heiðraðar, en báðar hafa þær gegnt lykilhlutverki við að efla og treysta vináttu Íslands og Grænlands, og verið hjálparhellur Hróksins við skáklandnámið frá upphafi. Benedikte er fv. félagsmálaráðherra á Grænlandi og var um árabil formaður Kalak. Hún hefur staðið að ótal viðburðum í þágu Grænlands og Íslands, og er nú ráðgjafi á hinni nýju ræðisskrifstofu Íslands í Nuuk. Kristjana Guðmundsdóttir er ekkja Jonathans Motzfeltds, fyrsta forsætisráðherra Grænlands, en hann gegndi því embætti alls 17 ár, og sannkallaður landsfaðir hins nýja Grænlands. Jonathan var mikill Íslandsvinur og ötull talsmaður stóraukinnar samvinnu Íslendinga, Grænlendinga og Færeyinga.

Flugfélagshátíðin 2013 í Nuuk markar upphafið að ellefta starfsári Hróksins á Grænlandi. Hrókurinn hélt fyrsta alþjóðlega mótið í sögu Grænlands í Qaqortoq árið 2003, og síðan hafa liðsmenn félagsins farið um 30 ferðir til Grænlands að útbreiða fagnaðarerindi skáklistarinnar. Markmiðið frá upphafi hefur jafnframt verið að efla vináttu og auka samvinnu grannþjóðanna á sem flestum sviðum.

 Meðal viðburða á Flugfélagshátíð Hróksins má nefna fjöltefli í verslunarmiðstöðinni Nuuk á laugardag og Meistaramót Nuuk í hraðskák sem haldið verður á sunnudag. Báðir viðburðir eru skipulagðir í samvinnu við Skákfélag Nuuk, sem er vinafélag Hróksins.

 Í næstu viku munu Hróksmenn fara í grunnskóla, leikskóla og fjölsmiðju fyrir unglinga, heimsækja geðdeildir og athvörf. Taflsettin frá FÍ munu því rata á marga staði, og ljóst að skáklífið í Nuuk mun blómstra í vetur, enda mun Skákfélagið í Nuuk fylgja starfi Hróksmanna eftir af krafti.

 Leiðangursmenn eru Hrafn Jökulsson, Róbert Lagerman og Jósep Gíslason. Hrafn og Róbert eru jafnframt stjórnarmenn í Kalak, vinafélagi Íslands og Grænlands. Kalak stendur árlega að heimsókn barna frá Austur-Grænlandi sem hingað koma til að læra að synda, kynnast jafnöldrum sínum og íslensku samfélagi. Þá stóð Kalak, ásamt fjölmörgum aðilum, fyrir söfnun í vor þegar tónlistarhúsið í Kulusuk brann. Allt útlit er fyrir að nýtt tónlistarhús rísi strax á næsta ári.

 Flugfélagshátíðin í Nuuk er einhver metnaðarfyllsti viðburður sem Hrókurinn hefur staðið að á Grænlandi, og nýtur til þess stuðnings fjölmargra fyrirtækja og einstaklinga. Í vetur eru jafnframt fyrirhugaðar á vegum Hróksins og Kalak skákferðir til Upernavik, sem er á 72. breiddargráðu á vesturströndinni, og til Kulusuk og Tasiilaq á austurströndinni. Um páskana verður svo haldin áttunda hátíðin í röð í Ittoqqortormitt við Scoresby-sund, sem er afskekktasta þorp norðurslóða.

 Hægt verður að fylgjast með Flugfélagshátíð Hróksins og Kalak á Facebook-síðunni Skák á Grænlandi.