Hrˇkurinn undirbřr lei­angur til Austur-GrŠnlands Ý febr˙ar

Óskað eftir gjöfum frá Íslandi til barna í fátækustu þorpum Grænlands.

 

Skákfélagið Hrókurinn undirbýr nú leiðangur til nokkurra þorpa á Austur-Grænlandi, 19. til 26. febrúar. Ferðin markar upphafið að tólfta starfsári Hróksins á Grænlandi, og hefur félagið skipulagt vel yfir 30 skákferðir til Grænlands. Þúsundir barna hafa fengið taflsett og skákkver að gjöf. Hrókurinn hefur heimsótt bæi og þorp um gjörvallt Grænland og haldið óteljandi hátíðir og skákmót, þar sem gleðin og vináttan eru höfð að leiðarljósi. Yfirskrift hátíðarinnar í febrúar er einmitt: Grænland -- gleðin að leiðarljósi.

 

Leiðangursmenn fljúga til Kulusuk með Flugfélagi Íslands, sem frá upphafi hefur verið helsti bakhjarl Hróksins á Grænlandi. Kulusuk er það þorp í heiminum sem stendur Íslendingum næst, bókstaflega. Íbúar þar eru innan við 300. Hróksmenn taka virkan þátt í byggingu á nýju tónlistarhúsi, en á síðasta ári var efnt til landssöfnunar á Íslandi þegar litla tónlistarhúsið í Kulusuk brann til kaldra kola í fárviðri. Í Kulusuk verður haldin skákhátíð og öll börnin í bænum fá glaðning frá Hróknum og íslenskum fyrirtækjum.

 

Hrókurinn verður líka á ferð í Tasiilaq, höfuðstað Austur-Grænlands. Þar eru íbúar tæplega 2000, og í Tasiilaq héldu Hróksmenn fjölmennar sumarskákhátíðir 2004, 2005, 2006 og 2007. Nú verður efnt til skákhátíðar í samvinnu við grunnskólann í bænum, auk þess sem barnaheimili og athvörf verða heimsótt.

 

Liðsmenn Hróksins munu ennfremur fara til Sermiligaq (íbúar um 220) og Tiniteqilaq (íbúar um 130) og sjá til þess að öll börn fá glaðning frá Íslandi.

 

Liðsmenn leiðangursins eru Hrafn Jökulsson, Róbert Lagerman, Stefán Herbertsson og Valdimar Halldórsson.

 

Markmiðið er að halda eftirminnilega og skemmtilega hátíð, með ótal litlum og stórum viðburðum. 

 

Af þessu tilefni leitar Hrókurinn til almennings og fyrirtækja um gjafir handa börnunum á Austur-Grænlandi. Það geta verið húfur eða treflar, buff eða pennar, leikföng eða litir -- helst eitthvað létt og meðfærilegt. Hrókurinn óskar jafnframt eftir styrkjum vegna hátíðarinnar og næstu verkefna á Grænlandi. Vinsamlega hafið samband við Hrafn Jökulsson  eða í síma 6950205.

 

Hrókurinn þakkar öllum þeim fjölmörgu sem hafa stutt við skáklandnámið á Grænlandi og starf okkar í þágu vináttu og samvinnu vinaþjóðanna í norðri.